Fótbolti

Ellefu uppaldir leikmenn Barcelona á vellinum í gær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Barcelona vann í gær sannfærandi 4-0 útisigur á Levante í spænsku úrvalsdeildinni en í 60 mínútur voru eingöngu uppaldir leikmenn á vellinum.

Með sigrinum náði Barcelona þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar en liðið er með 37 stig af 39 mögulegum. Atletico Madrid er í öðru sæti með 34 stig en Real Madrid er í þriðja sæti - ellefu stigum á eftir Börsungum.

Andres Iniesta var aðalmaðurinn í sigrinum í gær en hann skoraði eitt mark og lagði upp hin þrjú. Lionel Messi skoraði tvö mörk og Cesc Fabregas eitt.

Dani Alves var eini maðurinn í byrjunarliði Barcelona sem spilaði ekki í La Masia - unglingaakademíu félagsins. Alves fór hins vegar meiddur af velli á 14. mínútu og Martin Montoya kom inn á í hans stað.

Næstu 60 mínúturnar var Barcelona eingöngu skipað leikmönnum sem höfðu spilað með unglingafélögum liðsins. Flestir skiluðu sér þaðan beint í aðalliðið.

Þó ekki allir. Sumir fóru til annarra félaga í millitíðinni og kostuðu því Barcelona skildinginn á endanum. Þetta eru þeir Gerard Pique (Manchester United), Jordi Alba (Valencia) og Cesc Fabregas (Arsenal).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×