Fótbolti

Neymar: Engin getur það sem Messi gerir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar og Lionel Messi.
Neymar og Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Neymar, framherji Santos og brasilíska landsliðsins, hefur verið mikið borinn saman við Lionel Messi á undanförnum misserum og menn eins og Pele hafa jafnvel sagt að hann sé betri en Argentínumaðurinn.

Neymar sjálfur er hinsvegar á því að Lionel Messi sé besti fótboltamaður heims og að hann eigi að vinna Gullboltann enn eitt árið.

„Að mínu mati þá eru þrír leikmenn í sérflokki en það eru Iniesta, Ronaldo og Messi," sagði Neymar í viðtali hjá spænska blaðinu Marca.

„Messi er samt sá besti. Það er enginn sem getur gert þá hluti sem hann gerir. Það yrði algjör draumur að spila við hliðina á Messi og ég yrði líka ánægður með að fá bara að æfa með honum," sagði Neymar.

Messi hrósaði Neymar á dögunum en Brasilíumaðurinn sem er fimm árum yngri en Messi hefur skorað 46 mörk í 53 leikjum með Santos og brasilíska landsliðinu á árinu 2012.

„Ég var mjög ánægður með að fá hrós frá besta leikmanni í heimi og ég vil þakka honum fyrir hlý orð," sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×