Fótbolti

Messi skoraði ekki og meiddist í sigri Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona náði þriggja stiga forskoti á Atlético Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 heimasigur á Celta Vigo í Nývangi í kvöld.

Það vakti kannski einna mesta athygli að Lionel Messi tókst ekki að skora en að sama skapi náðu tveir af þremur í varnarlínu Barcelona að skora.

Adriano skoraði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu eftir flotta sókn og sendingu frá Pedro og Jordi Alba kom Barcelona í 3-1 á 61. mínútu eftir sendingu David Villa. Markið átti þó aldrei að standa þar sem vinstri bakvörðurinn var greinilega rangstæður.

Adriano og Jordi Alba voru í þriggja manna varnarlínu Barcaelona ásamt Javier Mascherano en Marc Bartra kom síðan inn í vörnina í hálfleik.

Mario Bermejo jafnaði metin fyrir Celta Vigo aðeins þremur mínútum eftir að Adriano kom Barca í 1-0 en það tók David Villa aðeins tvær mínútur að koma Barcelona aftur yfir þegar hann skoraði eftir sendingu frá Andrés Iniesta.

Lionel Messi skoraði ekki í leiknum og fékk að auki högg á hægri hné. Hann kláraði leikinn af því að Barcelona var búið með skiptingarnar en meiðslin litu ekki vel út.

Argentínumaðurinn fékk því ekki tækifæri til að halda upp á fæðingu sonar síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×