Fótbolti

Veigar Páll: Gunnarsson-málið er orðið svolítið pirrandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson ræddi við Guðna Ölversson í kvöldfréttum Stöðvar tvö og nú er hægt að sjá allt viðtalið við kappann hér inn á Vísi. Veigar talar þarna um gremju sína út í Gunnarsson-málið sem er daglega til umfjöllunar í norsku fjölmiðlunum.

Vålerenga keypti Veigar Pál frá Stabæk fyrir eina milljón norskra króna. Með í kaupunum fylgdi kaupréttur á fimmtán ára leikmanni sem var metinn á fjórar milljónir. Með því sparaði Stabæk sér að greiða franska félaginu Nancy tvær og hálfa milljón króna sem það hefði þurft að gera hefði Veigar Páll farið á fimm milljónir. Á endanum fékk Nancy bara hálfa milljón.

Forráðamenn liðanna gerðu sig seka um glæpsamlegt athæfi og eru afar líklega á leiðinni í fangelsi þegar réttarhöldum yfir þeim lýkur.

„Þetta mál er vissulega farið að fara í taugarnar á mér. Þegar þetta byrjaði þá vissi ég ekki hversu stórt mál þetta yrði en það er orðið svolítið pirrandi að þetta sé nú búið að vera í heilt ár í fjölmiðlunum hér úti," segir Veigar Páll.

„Þetta mál tekur kraft úr mér og ég vona bara að þetta fari að skýrast og klárist sem fyrst," sagði Veigar Páll.

„Ég vissi ekkert um þetta og fékk ekki að vita af þessu fyrr en daginn eftir að ég var seldur. Þetta var sjokk og maður var líka svekktur að hafa verið seldur á svona lítinn pening og væri ekki meira metinn en þetta," sagði Veigar Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×