Fótbolti

Barcelona og Real geta ekki mæst í bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spánarmeistarar Real Madrid og bikarmeistarar Barcelona sluppu við hvort annað þegar dregið var í 32 liða úrslit bikarkeppninnar. Bæði lið mæta liðum úr spænsku b-deildinni. Það er hinsvegar ljóst að liðin geta ekki mæst í bikarúrslitaleiknum.

Barcelona dróst á móti Alaves en Real Madrid mætir Alcoyano og ef þau komast bæði áfram þá er klárt hvað bíður þeirra í 16 liða úrslitunum. Barca mætir annaðhvort Córdoba eða Real Sociedad en Real fær að reyna sig á móti Almería eða Celta de Vigo.

Það er jafnframt öruggt að Barcelona og Real Madrid munu mætast í undanúrslitum keppninnar komist þau bæði svo langt. Spilað er heima og heiman í öllum umferðum og þeir leikir munu þá fara fram tvær síðustu vikurnar í janúar.

Atlético Madrid, Sevilla, Real Betis og Real Valladolid eru öll á hinum vængnum og geta því ekki mætt risunum tveimur fyrr en í úrslitaleiknum sem fer fram næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×