Fótbolti

Barcelona vann í níu marka leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lionel Messi skoraði þrennu þegar að Barcelona vann sigur á Deportivo, 5-4, í ótrúlegum leik í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Auk markanna níu fór eitt rautt spjald á loft.

Barcelona komst í 3-0 forystu eftir aðeins átján mínútur. Jordi Alba, Cristian Tello og Messi skoruðu mörk gestanna frá Katalóníu.

Pizzi minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 26. mínútu og Alex Bergantinos skoraði annað mark Deportivo stuttu síðar. Messi skoraði þó annað mark sitt áður en flautað var til hálfleiks. Staðan þá var orðin 4-2, Börsungum í vil.

Pizzi skoraði öðru sinni í upphafi síðari hálfleiks og aðeins tveimur mínútum síðar fékk Javier Mascherano rauða spjaldið fyrir sína aðra áminningu í leiknum.

Messi innsiglaði þrennuna með marki eftir ótrúlegan sprett á 77. mínútu og Jordi Alba skoraði svo sjálfsmark tveimur mínútum síðar. Fleiri urðu mörkin ekki og er Barcelona á toppi deildarinnar með 22 stig af 24 mögulegum. Deportivo er í átjánda sæti með sex stig en þetta var fjórða tap liðsins í röð.

Messi hefur nú skorað 71 mark á árinu 2012 sem er ótrúlegur árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×