Menning

Djúpið miklu vinsælli en Frost

Tæplega 23.500 manns hafa séð kvikmyndina Djúpið síðan hún var frumsýnd 21. september og geta aðstandendur hennar því vel við unað.

Til samanburðar hafa aðeins tæplega 5.200 manns séð spennutryllinn Frost sem var frumsýndur tveimur vikum fyrr. Þetta kemur fram í nýjustu tölum SMÁÍS, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, frá síðasta mánudegi. Tekjurnar af Djúpinu nema 30,5 milljónum króna en tekjurnar af Frost eru tæpar 6,5 milljónir.

Djúpið, í leikstjórn Baltasars Kormáks, hefur fengið fyrirtaks dóma, þar á meðal fjórar stjörnur hér í Fréttablaðinu, en viðbrögðin við Frosti í leikstjórn Reynis Lyngdal hafa verið heldur dræmari. Til að mynda hlaut hún einungis eina stjörnu af fimm mögulegum hér í blaðinu. Þess má geta að Djúpið verður framlag Íslendinga til Óskarsverðlaunanna sem verða afhent í Hollywood á næsta ári.

Þriðja íslenska myndin sem hefur verið í bíó að undanförnu er Ávaxtakarfan í leikstjórn Sævars Guðmundssonar. Um 10.600 manns hafa séð þessa barnamynd síðan hún var frumsýnd 31. ágúst og nema tekjurnar 7,9 milljónum króna.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.