Fótbolti

Liverpool skoraði fimm mörk í Sviss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Varalið Liverpool vann öflugan 5-3 sigur á Young Boys í A-riðli Evrópudeildar UEFA í kvöld þrátt fyrir að hafa lent tvívegis undir í leiknum.

Fyrsta mark Liverpool kom strax á fjórðu mínútu og var afar skrautlegt mark Juhani Ojala sem fékk boltann í sig frá samherja.

Heimamenn jöfnuðu metin á 38. mínútu áður en Andre Wisdom, sem spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool í dag, kom þeim ensku yfir með flottu skallamarki á 40. mínútu.

Gonzalo Zarate kom svo Young Boys yfir á 63. mínútu en fjórum mínútum síðar jafnaði varnarmaðurinn Sebastian Coates.

Jonjo Shelvey kom svo inn á varamaður eftir síðara jöfnunarmarkið og hann tryggði sínum mönnum sigur með tveimur flottum mörkum undir lok leiksins.

Alls gerði Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, ellefu breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik og stillti upp ungu liði.

Í sama riðli gerðu Udinese og Anzhi 1-1 jafntefli og er því Liverpool eitt á toppi riðilsins.

Ragnar Sigurðsson var í byrjunarliði FCK sem vann 2-1 sigur á Molde í sömu keppni. Ragnar lék allan leikinn en Sölvi Geir Ottesen var á bekknum.

Þá var Helgi Valur Daníelsson í byrjunarliði AIK sem tapaði stórt fyrir Napoli á Ítalíu, 4-0. Eduardo Vargas skoraði þrennu fyrir ítalska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×