Fótbolti

Real Madrid burstaði Deportivo | Ronaldo með þrennu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Real Madrid var í litlum vandræðum með Deportivo de La Coruña í spænsku úrvalsdeildinni þegar liðið gjörsigraði gestina 5-1.

Það sló þögn á Bernabéu, heimavöll Real Madrid, þegar Riki kom gestunum yfir eftir korters leik en heimamenn létu markið ekkert slá sig útaf laginu og svöruðu um hæl.

Cristiano Ronaldo jafnaði metin um tíu mínútum síðar og það var síðan Ángel di María sem kom Real Madrid yfir sjö mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Þegar aðeins ein mínúta var eftir að hálfleiknum skallaði Cristiano Ronaldo boltann í netið og var staðan 3-1 fyrir heimamenn í hálfleik.

Real Madrid hélt áfram uppteknum hætti í síðari hálfleiknum og var það Pepe sem skoraði fjórða mark liðsins á 66. mínútu. Cristiano Ronaldo var aftur á ferðinni rétt fyrir leikslok þegar hann skoraði sitt þriðja mark í leiknum úr vítaspyrnu. Leiknum lauk því með öruggum sigri Real Madrid 5-1.

Real Madrid er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig en Deportivo de La Coruña í því 14. með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×