Fótbolti

Fyrrverandi forseti Barcelona kemur til varnar Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/AFP
Joan Laporta, fyrrverandi forseti Barcelona, hefur komið til varnar Portúgalann Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid en mikið hefur verið rætt og skrifað um óánægju Ronaldo hjá spænsku meisturunum. Ronaldo kveikti reyndar undir þeirri umræðu með því að fagna ekki mörkum sínum í síðasta leik hans með Real Madrid.

Margir spænskir knattspyrnuspekingar hafa álitið sem svo að þarna væri Ronaldo aðeins að reyna að redda sér nýjum og betri samningi en Laporta er hinsvegar ekki þeirrar skoðunar og telur að það sé pressan sem er að fara með leikmanninn.

„Það eru allir að missa sig yfir þessu máli. Við verðum samt að átta okkur á því að Ronaldo er bara mannlegur og hann er undir gríðarlegri pressu. Við verðum öll fyrir áhrifum frá því sem gerist í kringum okkur," sagði Joan Laporta við spænska blaðið AS.

„Hann lét þetta frá sér án þess að átta sig á því hverjar afleiðingarnar yrðu. Slíkt hefur líka komið fyrir mig. Það mikilvægasta við þetta er hann sagði frá því á hreinskilinn hátt hvernig honum leið," sagði Laporta.

„Cristiano er algjör fagmaður. Það er ekki auðvelt að segja frá því hvernig þér líður þegar þú ert undir svona mikilli pressu. Nú er það undir Real Madrid að gera hann ánægðan á ný," sagði Laporta.

Cristiano Ronaldo er 27 ára gamall og hann er með samning við Real Madrid til júní 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×