Íslenski boltinn

Selfoss hélt sæti sínu í efstu deild þrátt fyrir hrakspár

Kolbeinn Tumi Daðason á Þórsvelli skrifar
Þrátt fyrir 9-0 tap fyrir Þór/KA í kvöld gátu Selfyssingar fagnað í leikslok. Sigur FH á Fylki í Hafnarfirði þýddi að liðið hélt sæti sínu í deildinni þvert á allar spár.

Afar áhugavert hefur verið að fylgjast með gengi Selfyssinga í sumar. Liðið hefur spilað flottan fótbolta sem hefur þó komið sér í koll gegn stærri félögunum. Liðið hefur tapað leikjum stórt, líkt og í kvöld, en þegar liðið mætir liðunum í neðri hlutanum hefur sjálfstraust í sóknaruppbyggingu liðsins borið árangur.

„Ég sagði við stelpurnar að þegar þær væru búnar að fara í sturtu og klæða sig myndu þær átta sig á því sem við höfum gert," sagði Björn Kristinn Björnsson þjálfari Selfoss í leikslok.

Selfossliðið er ungt að árum en liðið lék í sumar í fyrsta sinn meðal þeirra bestu. Markatala liðsins er verst allra liða í deildinni, raunar langverst, en liðið hefur aldrei bognað og gerði í raun ekki í kvöld ef miðað er við hvernig fótbolta liðið leggur upp með að spila.

Þrátt fyrir að fá hvert markið í andlitið á fætur öðru hélt liðið áfram að spila flottan fótbolta. Í raun er rannsóknarefni útaf fyrir sig hvernig liðinu tókst ekki að skora úr öllum þeim færum sem liðið skapaði sér eftir fallegt spil. Lítið var um fagnaðarlæti hjá leikmönnum liðsins í leikslok en vænta má að öllu léttara er yfir stelpunum sem nú sitja í rútu á leiðinni suður á nýjan leik.

Frábær frammistaða hjá Selfossi, sem líkt og Þór/KA, kom öllum á óvart og getur verið afar stolt af frammistöðu sinni í sumar.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Þór/KA-Selfoss 9-0 | Þór/KA Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Þór/KA er Íslandsmeistari kvenna í fótbolta í fyrsta skipti eftir 9-0 stórsigur á Selfossi á Akureyri í 17. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Þór/KA-liðið skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik og raðaði síðan inn mörkum í seinni hálfleiknum. Sandra María Jessen og Katrín Ásbjörnsdóttir voru báðar með þrennu fyrir Þór/KA í kvöld og Kayle Grimsley lagði upp fimm af mörkum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×