Erlent

Dómurinn kveðinn upp á morgun

KHN skrifar
Spurningunni um sakhæfi norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik verður svarað á morgun. Breivik hefur ítrekað lýst því yfir að hann sé sakhæfur á meðan saksóknari í máli hans krefst þess að hann verði vistaður á geðdeild um ókomin ár.

Geðheilsa Breiviks verður til umfjöllunar í Ósló á morgun. Þá mun dómarinn skera úr um hvort að fjöldamorðinginn eigi í raun heima í almennu fangelsi eða á réttargeðdeild.

Eitt er þó víst. Breivik mun eiga samastað í Ila-fangelsinu um ókomin ár. Frá því að Breivik var handtekinn í kjölfar voðaverkanna í Útey og í stjórnarráðshverfinu í Ósló hefur hann dvalið í fangelsinu. Þar hefur Breivik aðgang að þremur klefum en hver er átta fermetrar að stærð. Í einum er svefnaðstaða, öðrum líkamsrækt og í þriðja er tölva sem Breivik hefur notað til að rita endurminningar sínar.

Vistun Breiviks í Ila-fangelsinu verður með svipuðum hætti verður hann metinn sakhæfur á morgun. Ef dómarinn ákveður hins vegar að úrskurða hann ósakhæfan verður hann fluttur á sérstaka réttargeðdeild í fangelsinu. En dómurinn á morgun mun þó ekki endilega marka endalok málsins.

„Hann segir að ef dómararnir komast að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki heill geðheilsu, þ.e. veikur á geði þá mun hann áfrýja. Ef dómararnir dæma hann til refsingar og að hann sé andlega heill segir hann að hann muni ekki áfrýja, eftir því sem okkur skilst á honum," segir Vibeke Hein Baera, lögmaður Breiviks.

Rúmt ár er síðan Breivik myrti sjötíu og sjö manneskjur í miðborg Óslóar og í Útey. Aðstandendur fórnarlamba Breiviks verða viðstödd dómsuppkvaðninguna á morgun. Sjálfur mun Breivik sitja bakvið glervegg meðan úrskurðurinn verður kynntur.

„Frá lagalegum sjónarhorni gæti hann orðið frjás maður að nokkrum árum liðnum. En ef við lítum raunhæft á málið mun hann hugsanlega sitja í fangelsi það sem hann á eftir ólifað," segir Lasse Qvigstad, fyrrverandi saksóknari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×