Körfubolti

Enginn hefur grætt meira á NBA-ferlinum en Garnett - Jordan í 87. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Garnett.
Kevin Garnett. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kevin Garnett ætti að vera þokkalega stæður eftir NBA-ferillinn ef marka má nýjan lista yfir þá leikmenn NBA-deildarinnar sem hafa fengið hæstu heildarlaunin á ferli sínum. Garnett slær þar við köppum Shaquille O'Neal og Kobe Bryant sem koma í næstu sætum.

Kevin Garnett hefur spilað í deildinni í 17 ár og verður áfram með Boston Celtics á komandi tímabili. Hann hefur gert tvo 100 milljóna dollara samninga á ferlinum og er alls búinn að fá meira en 328,5 milljónir dollara í heildartekjur sem gera 40 milljarða íslenskra króna á núvirði.

Kevin Garnett fékk 126 milljón dollara samning hjá Minnesota Timberwolves árið 1997 þegar hann var bara 19 ára gamall og náði að gera annan 100 milljón dollara samning við Timberwolves áður en hann fór til Boston Celtics.

Það vekur athygli að Michael Jordan er aðeins í 87. sæti á listanum eða rétt á eftir þeim David Lee og Brad Miller. Það er samt ekki hægt að líta framhjá því að stærsti hluti tekna Jordan á ferlinum komu í gegnum ótal risvaxinna auglýsingasamninga.

Það mun örugglega enginn ná Kevin Garnett á þessum lista í framtíðinni því hann slapp við ýmsar reglur sem eru í gildi í dag. Garnett kom inn í deildina strax eftir menntaskóla, hann var með lausan samning eftir aðeins þrjú tímabil í deildinni og gerði síðasta risasamninginn sinn áður en reglunum um launaþakið var breytt árið 2005. Allt þetta er bannað í dag.

Tíu tekjuhæstu NBA-leikmennirnir frá upphafi:

1. Kevin Garnett, 328.562.398 dollarar

2. Shaquille O'Neal, 292.198.327

3. Kobe Bryant, 279.738.062

4. Tim Duncan, 224.709.155

5. Dirk Nowitzki, 204.063.985

6. Joe Johnson, 198.647.490

7. Jason Kidd, 193.855.468

8. Ray Allen, 181.127.360

9. Chris Webber, 178.230.218

10. Paul Pierce, 169.486.218

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×