Körfubolti

„Verður sér­stök stund fyrir hana“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Benedikt fagnar því að ná landsliðinu loks aftur saman í keppnisverkefni.
Benedikt fagnar því að ná landsliðinu loks aftur saman í keppnisverkefni. Vísir/Hulda Margrét

„Núna er loksins komið að þessu,“ segir Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, um verkefni kvöldsins gegn Slóvakíu í undankeppni EM á næsta ári. Liðið hefur beðið lengi eftir því að komast aftur saman út á völl.

Ísland hefur ekki spilað landsleik í tæplega tólf mánuði. Síðasti landsliðsgluggi var þegar liðið spilaði fyrstu tvo leikina í yfirstandandi undankeppni í nóvember 2023. Landsliðshópurinn hefur breyst töluvert á þessu heila ári, þar sem meiðsli hafa eitthvað að segja, en margar ungar stúlkur sem fá tækifæri í komandi verkefni.

„Mér líst vel á hann. Það eru töluverðar breytingar frá síðasta glugga. Maður reynir alltaf að byggja ofan á síðasta glugga en svo atvikast það þannig núna að það eru meiðsli í ákveðnum stöðum. En við teljum okkur geta unnið úr því. Það eru stelpur hérna hungraðar að koma inn sem ætla að standa sig og við höfum þvílíka trú á. Ég er bara mjög bjartsýnn á þetta,“ segir Benedikt.

Klippa: Biðin á enda

„Ég er alltaf að segja þetta að breiddin í íslenska kvennakörfuboltanum er að verða meiri. Fleiri stelpur til að velja úr og það þarf að skilja einhverjar góðar eftir fyrir utan hóp. Bara eins og þetta á að vera,“ segir Benedikt.

Danielle fær loks landsleik

Anna Lára Vignisdóttir og Kolbrún María Ármannsdóttir eru meðal nýliða í hópnum og þá eru sex leikmenn til viðbótar sem hafa spilað landsleiki í eins stafs tölu. Einn nýliðanna er hins vegar heldur reynslumeiri. Danielle Rodriguez öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt í byrjun árs og fær loks tækifæri til að spila í íslensku landsliðstreyjunni.

„Við erum að fá góða nýliða, bæði í Dani og Kollu, og stelpum sem eru komnar inn í þetta algjörlega tilbúnar og styrkja liðið mikið. Dani er búin að bíða lengi eftir þessu og hlakkar alveg ofboðslega mikið til. Þetta verður sérstök stund fyrir hana,“ segir Benedikt.

Ísland tapaði fyrstu tveimur leikjunum í riðlinum fyrir sléttu ári síðan en hékk vel í Tyrkjum í Ólafssal í leik sem lauk með 72-65 tapi. Benedikt vill byggja á því gegn gríðarsterku slóvakísku liði.

„Hörkuleikir, við þekkjum Rúmeníu vel, en Slóvakíu minna. Þetta slóvakíska lið er búið að vera í fremstu röð lengi. Þær eru með allt eiginlega. Gæði, hæð, hraða bara nefndu það. En við sýndum það hérna gegn Tyrkjum að við getum keppt við svona lið og ætlum að gera það aftur,“ segir Benedikt.

Leikur Íslands og Slóvakíu hefst klukkan 19:30 og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×