Íslenski boltinn

Shaneka hetja Eyjakvenna gegn Blikum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Ernir
Shaneka Gordon skoraði bæði mörk ÍBV í 2-1 útisigri á Breiðablik í 12. umferð Pepsi-deildar kvenna í dag. Sigurmarkið kom í viðbótartíma en Blikar höfðu ráðið gangi mála lengst af í leiknum.

Blikar byrjuðu af krafti en það voru engu að síður Eyjakonur sem komust yfir í sinni fyrstu sókn. Shaneka Gordon fékk þá langa sendingu inn fyrir vörnina og lagði boltann með vinstri fæti í fjærhornið.

Þrátt fyrir að vera betri aðiilinn lengst af tókst Blikum ekki að jafna metin fyrr en stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir fékk þá stungusendingu og kláraði færið virkilega vel.

Breiðablik sótti án afláts eftir markið en þegar allt stefndi í jafntefli fékk Shaneka Gordon boltann á vítateig Blika hægra megin. Hún lék á varnarmann Blika áður en hún hamraði knöttinn í netið með vinstri fæti. Eyjakonur fögnuðu að vonum mikið enda um langþráð þrjú stig að ræða eftir tvö töp í deildinni í röð.

Þór/KA, sem gerði jafntefli gegn Val í kvöld, er í toppsætinu með 29 stig. Breiðablik hefur 23 stig í öðru sæti og ÍBV í því fjórða með 22 stig. Stjarnan hefur einnig 23 stig en lakari markatölu en Blikar. Leikur liðsins gegn KR stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×