Formúla 1

McLaren vongóðir en Vettel vonsvikinn

Birgir Þór Harðarson skrifar
Jenson Button náði ekki að nýta dekkin nægilega vel í tímatökunum og ræsir því sjötti.
Jenson Button náði ekki að nýta dekkin nægilega vel í tímatökunum og ræsir því sjötti. nordicphotos/afp
Sam Michael, íþróttastjóri McLaren-liðsins í Formúlu 1, segir sigur í þýska kappakstrinum enn vera raunhæfan möguleika þrátt fyrir lélega tímatöku í dag. Jenson Button mun ræsa sjötti og Lewis Hamilton sjöundi.

Rigningin gerði McLaren eriftt fyrir og liðið átti í mesta basli með að aðlagast aðstæðum. Spáð er þurru veðri á morgun þegar kappaksturinn fer fram og Michael er sannfærður um að uppfærður McLaren-bíllinn eigi eftir að skila góðum úrslitum.

"Við vorum mjög sterkir á æfingum 1 og 3 áður en það fór að rigna. Dekkin og eldsneytiseyðslan líta sérstaklega vel út fyrir okkur," sagði Michael. Spurður hvort McLaren gæti unnið kappaksturinn svaraði hann: "Já og það er markmiðið."

Þeir Button og Hamilton voru heilum 3,5 sekúndum á eftir Fernando Alonso í síðustu lotu tímatökunnar í dag. Michael skrifar þann slaka árangur á Pirelli-dekkin og segir liðið ekki hafa náð að nýta þau nógu vel.

Sebastian Vettel, heimamaðurinn hjá Red Bull-liðinu, ræsir annar í kappakstrinum á morgun. Hann var ekki ánægður með árangur sinn í tímatökunum. "Ég var ekki sáttur við tímatökuhringinn minn í síðustu lotunni," viðurkenndi Vettel. "Aðferð Fernandos var örlítið fljótlegri. Ég hefði getað farið hraðar en ég veit ekki hvort það hefði dugað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×