Íslenski boltinn

Jóhann Kristinn: Ég hef ekki verið að hnjóta um peningahrúgur fyrir norðan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Þór/KA í knattspyrnu segir tvo nýja erlenda leikmenn Stjörnunnar gríðarlegan styrk fyrir Garðbæinga. Hann segir erfitt fyrir norðankonur að styrkja sig í félagaskiptaglugganum.

Stjarnan vann 2-1 sigur í framlengdum leik liðanna í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.

„Stjarnan er að gera mjög stóra hluti með að taka þessa tvo mjög sterku leikmenn inn. Þó önnur (Veronica Perez) hafi kannski ekki sýnt sitt rétta andlit held ég að hún verði drjúg fyrir þær. Þetta eru rosalega sterkir leikmenn með góða ferilskrá sem hafa sannað sig," sagði Jóhann og greinilegt að honum finnst liðsstyrkur Garðbæinga mikill.

„Að bæta þeim tveimur við þann hóp sem þær höfðu fyrir. Almáttur. Mönnum er alvara hér í Garðabænum," segir Jóhann Kristinn.

Aðspurður hvort þeir peningar sem virðast vera til í Garðabænum séu ekki til norðan heiða segir Jóhann:

„Ég hef ekki verið að hnjóta um peningahrúgur fyrir norðan. Við erum samt eins og öll lið að kíkja í kringum okkur. Við erum ekkert að spila ellefu gegn ellefu á æfingum. Við erum bara rétt rúmlega ellefu svo við erum að skoða hvort við getum styrkt okkur en það er mjög erfitt," sagði Jóhann.

Afganginn af viðtalinu við Jóhann Kristinn auk umfjöllunar um leikinn og viðtöl má sjá hér.

Umfjöllun: Stjarnan - Þór/KA 2-1 | Stjarnan í bikarúrslit


Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: KR - Valur - 0-2 | Valur í úrslit fimmta árið í röð

Valsarar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu kvenna með sigri á KR, 2-0, í Frostaskjólinu. Johanna Rasmussen gerði fyrra mark Vals í leiknum en það síðara kom í uppbótartíma þegar Rakel Logadóttir skoraði glæsilegt mark. Þetta er fimmta árið í röð sem Valur kemst í úrslit bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×