Íslenski boltinn

Stjörnukonur misstu niður 2-0 forskot í Eyjum - Danka með tvö fyrir ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danka Podovac.
Danka Podovac. Mynd/Anton
ÍBV og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli í toppslag í 8. umferð Pepsi-deild kvenna í kvöld en bæði lið hafa verið að ná góðum úrslitum í undanförnum leikjum sínum. Stjarnan komst í 2-0 í fyrri hálfleik en ÍBV-liðinu tókst að tryggja sér eitt stig í þeim síðari. Danka Podovac var hetja Eyjaliðsins en hún skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum.

Anna Björk Kristjánsdóttir skoraði fyrra mark Stjörnunnar með þrumuskoti eftir hornspyrnu Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur á 36. mínútu og Harpa Þorsteinsdóttir bætti við öðru marki á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir sofandahátt í Eyjavörninni.

ÍBV-liðið byrjaði seinni hálfleikinn vel og Danka Podovac minnkaði muninn úr vítaspyrnu sem Shaneka Gordon fékk á 54.mínútu. Shaneka Gordon fékk dauðafæri skömmu síðar en Eyjakonur náðu ekki fylgja þessu eftir og Stjörnukonur virtust ætla að taka öll þrjú stigin með sér í land.

Danka Podovac var hinsvegar ekki búin að segja sitt síðasta og tókst að jafna metin á 84. mínútu með góðu skoti utarlega út teignum eftir sendingu fyrirliðans Elísu Viðarsdóttur.

Bæði lið reyndu að sækja sigurinn í lokin en mörkin urðu ekki fleiri og liðin sættust á 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×