Formúla 1

Kobayashi og Maldonado þurfa að borga 5,5 milljónir í sekt

Birgir Þór Harðarson skrifar
Maldonado í kröppum dansi á Silverstone.
Maldonado í kröppum dansi á Silverstone. nordicphotos/afp
Pastor Maldonado og Kamui Kobayashi hafa verið sektaðir fyrir óhöpp sín í breska kappakstrinum á Silverstone í gær. Þeir aka fyrir Williams og Sauber.

Maldonado ók inn í hlið Sergio Perez hjá Sauber með þeim afleiðingum að Perez þurfti að hætta keppni. Maldonado gat haldið áfram en var langt frá því að halda sama hraða og hann hafði fyrir óhappið.

Williams-ökuþórinn segist einfaldlega hafa misst stjórn á bílnum inn í Brooklands-beygjuna. Þess vegna ók hann inn í hlið Perez. Dómarar eru hins vegar sannfærðir um að Maldonado hafi bremsað of hægt og þannig stofnað sér og keppinauti sínum í hættu. Fyrir þetta atvik þarf Maldonado að greiða 10.000 evrur. Það jafngildir rúmlega 1,5 milljónum íslenskra króna.

Kamui Kobayashi var sektaður um heldur meira, eða 25.000 evrur. Það jafngildir tæplega fjórum milljónum íslenskra króna. Kamui ók niður þrjá vélvirkja þegar hann kom inn á þjónustusvæðið til að taka viðgerðarhlé. Þeir eru ekki alvarlega slasaðir, aðeins lemstraðir eftir byltuna.

Dómarar segja hann hafa bremsað of seint fyrir boxið og því komið of hratt að. Kamui viðurkennir það en segist ekki hafa getað stýrt bílnum því framhjólin voru bæði læst. Því fór sem fór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×