Íslenski boltinn

Þjálfari Fylkis áminntur fyrir ummæli um dómara og félagið sektað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Páll Pálmason, þjálfari Fylkis.
Jón Páll Pálmason, þjálfari Fylkis. Mynd / Stefán
Jón Páll Pálmason, þjálfari Fylkis í efstu deild kvenna í knattspyrnu, hefur verið áminntur af aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands vegna niðrandi ummæla um dómara.

Jón Páll fór mikinn í viðtali við Fótbolta.net að loknu tapi Fylkis gegn Val í Pepsi-deild kvenna á dögunum.

„Það sem gerist hér er að hann dæmir alltaf þegar Valsstelpurnar detta. Þegar við látum í okkur heyra þá er það spjald. Við fáum fjögur spjöld. Þegar við förum í tæklingar, þá er dæmt brot. Hann er bara heigull, þetta er algjör heigulskapur. Hann bognar undan vælinu í Valsstelpunum," sagði Jón Páll meðal annars í viðtalinu og hvatti til þess að hljóðnema yrði komið fyrir á vellinum til þess að fylgjast með „vælinu".

„Stöð 2 ætti að mæta hérna, sýna leikina og vera með míkrafón inná vellinum því þar er alvöru væl. Þeir ættu að sjá hvernig þessir herramenn taka á þessu. Ég held að það væri langbest að fá heyrnalausa menn til þess að dæma leikinn, sem heyra ekki vælið og eru með pung til þess að dæma helvítis leikinn eins og menn."

Auk áminningu Jóns Páls var knattspyrnudeild Fylkis sektuð um 25 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×