Formúla 1

Massa reiður sjálfum sér vegna mistaka

Birgir Þór Harðarson skrifar
Massa er búinn að vera í ruglinu á þessu tímabili og kemst ekki með tærnar þar sem Alonso hefur hælana.
Massa er búinn að vera í ruglinu á þessu tímabili og kemst ekki með tærnar þar sem Alonso hefur hælana. nordicphotos/afp
Felipe Massa hjá Ferrari segist vera sjálfum sér reiður vegna mistaka í upphafi kanadíska kappakstursins um helgina. Hann endaði tíundi í kappakstrinum.

Massa missti stjórn á bíl sínum í fyrstu beygju brautarinnar á sjötta hring og féll niður í tólfta sæti. Honum hefur ekki gengið vel í ár á meðan liðsfélagi hans hjá Ferrari, Fernando Alonso, blómstrar.

"Ég er mjög reiður út í sjálfan mig vegna mistakana," sagði hann. "Ég missti þá af efstu mönnum og eyðilagði dekkin sem þýddi að ég þurfti að taka viðgerðarhlé snemma."

Massa ók lengi eftir viðgerðarhléið á nýjum dekkjum án þess að stoppa. "Ég reyndi að vera eins lengi úti og ég gat svo þyrfti ekki að stoppa aftur. Dekkin voru gjörsamlega slitin niður í striga."

Hann segir tíunda sætið ekki sýna rétta mynd af möguleikum sínum í Ferrari-bílnum. "Ég er vonsvikinn því við sýndum samkeppnishæfi okkar. Það er eitthvað sem við gátum ekki í byrjun tímabilsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×