Íslenski boltinn

Fanndís meiddist gegn Stjörnunni | Gæti misst af Ungverjaleiknum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir óvíst hvort Fanndís Friðriksdóttir geti leikið gegn Ungverjum á laugardaginn. Fanndís meiddist á kvið í 2-2 jafntefli Breiðabliks og Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í gær.

„Fanndís fór á slysadeildina með sjúkrabíl eftir leikinn. Hún fékk þungt högg framan á kviðinn og fann fyrir miklum sársauka. Hún var send heim eftir skoðun og fór til okkar læknis í dag," segir Sigurður Ragnar sem segir líðan Fanndísar mun betri í dag.

„Við þurfum þó að fara varlega og sjá hvernig batinn heldur áfram. Það verður að koma í ljós hvort hún geti spilað," segir Sigurður Ragnar en nokkuð er um meiðsli í herbúðum landsliðsins.

Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður Djurgården er frá vegna meiðsla en Sandra Sigurðardóttir, markvörður Stjörnunnar, kom inn í hópinn í hennar stað.

Þá hefur Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður Piteå, glímt við meiðsli aftan í læri. Hún kom til landsins í gær og verður í umönnun hjá sjúkraþjálfara landsliðsins í dag.

„Ég held það sé á mörkunum hvort hún nái leiknum en það eru miklu meiri líkur á að hún nái seinni leiknum," segir Sigurður Ragnar.

Íslenska landsliðið mætir Ungverjum á Laugardalsvelli á laugardaginn í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn hefst klukkan 16.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×