Innlent

Ólafur Ragnar segist víst styðja réttindabaráttu samkynhneigðra

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
„Fyrir tveimur vikum var áróðurinn að ég væri á móti konum. Síðustu daga hefur áróðurinn verið að ég væri á móti Samkynhneigðum," skrifar Ólafur Ragnar Grímsson forseti á Facebook-síðu sína, og svarar þar því sem hann kýs að kalla áróður vefritsins Smugunnar. Þar var því haldið fram í gær að forsetinn hefði virt réttindabaráttu samkynhneigðra að vettugi. Meðal annars var vitna í stöðufærslu Hrafnkels Tjörva Stefánssonar, sem um árabil var framkvæmdastjóri Samtakanna '78, á Facebook, þar sem hann skrifaði:

Á síðustu árum hafa samkynhneigðir unnið hvern sigurinn á fætur öðrum í baráttunni fyrir jafnrétti og mannréttindum á Íslandi. Ólafur Ragnar Grímsson mætti aldrei á viðburði þar sem þessum sigrum var fagnað. Forseti Íslands lét ekki svo lítið að svara erindum frá Samtökunum '78 þar sem honum var boðið að taka þátt. Ekki í eitt einasta skipti. Mætti aldrei, svaraði aldrei."

Í svari Ólafs Ragnars segir að forsetaskrifstofan haldi ekki skrá um beiðnir sem ekki er unnt að sinna af ýmsum orsökum, t.d. vegna tímaskorts, annarra skuldbindinga eða fjarveru forseta. Þá er heldur ekki haldin skrá um þá viðburði sem forseti getur ekki sótt af sömu ástæðum.

Svo segir í svari Ólafs Ragnars: „Forseti hefur ávallt stutt baráttu samkynhneigðra og lagt henni lið á ýmsan hátt. Hann hefur m.a. rætt við erlenda blaðamenn sem hingað hafa komið til kynna sér margháttaðan árangur Íslendinga á þessu sviði."

Hægt er að lesa svar Ólafs Ragnars í heild sinni á Facebook síðu hans. Þá er hægt að lesa grein Smugunnar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×