Sport

Sigur eins og venjulega hjá Sebastien Loeb í Mexíkó

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrinum var vel fagnað í Mexíkó í gær.
Sigrinum var vel fagnað í Mexíkó í gær. Nordic Photos / AFP
Frakkinn Sebiastien Loeb á Citroen DS3 WRC bifreið sinni jók forystu sína í heimsmeistarakeppninni í rallakstri um helgina þegar hann vann Mexíkó-rallið sjötta árið í röð.

Loeb, sem ekur fyrir Citroen, hafði 36 sekúndna forystu fyrir síðustu sérleið sem ekin var í gær. Hann bætti um betur og kom 42 sekúndum á undan liðsfélaga sínum Mikko Hirvonen í mark.

„Ég er í skýjunum. Ég vinn alltaf hérna. Þetta eru einnig frábær úrslit fyrir liðið þar sem Mikko varð í öðru sæti. Tveir fyrir einn í þetta skiptið," sagði Frakkinn léttur í viðtali við blaðamenn að keppninni lokinni.

Norðmaðurinn Petter Solberg sem ekur fyrir Ford-liðið hafnaði í þriðja sæti. Sætið virtist reyndar ætla að falla liðsfélaga hans, Finnanum Jari-Matti Latvala, í hlut en sá missti stjórn á bifreið sinni þegar lítið var eftir af keppninni.

Loeb hefur 66 stig í fyrsta sæti heimsmeistarakeppninnar. Hirvonen er annar með 50 stig og Solberg þriðji með 47 stig að þremur keppnum loknum. Næst verður keppt í Portúgal að tveimur vikum liðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×