Fótbolti

Real með tíu stiga forystu á Spáni

Nordic Photos / AFP
Real Madrid lenti óvænt undir gegn Levante í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld en vann á endanum sannfærandi 4-2 sigur. Cristiano Ronaldo skoraði þrennu fyrir Madrídinga.

Gustavo Cabral kom Levante yfir strax á fjórðu mínútu en leikurinn breyttist á 44. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd á gestina. Vicente Iborra fékk seinna gula spjaldið sitt fyrir að handleika knöttinn í teig Real Madrid og skoraði Ronaldo úr vítinu.

Ronaldo bætti svo tveimur mörkum við í upphafi seinni hálfleiks áður en Aroune Kone minnkaði muninn fyrir Levante á 62. mínútu.

Karim Benzema tryggði svo Real endanlega sigurinn með því að skora fjórða mark liðsins þremur mínútum síðar og þar við sat. Ronaldo fór fyrir sínum mönnum í kvöld og var þriðja markið hans sérlega glæsilegt - þrumufleygur af um 25 metra færi.

Sigurinn þýðir að Real er með tíu stiga forystu á toppi deildarinnar en helsti keppinautur liðsins um spænska meistartitilinn, Barcelona, tapaði óvænt fyrir Osasuna í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×