Fótbolti

Mourinho: Pepe spilar ef hann er heill

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mourinho á blaðamannafundinum í dag.
Mourinho á blaðamannafundinum í dag. Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, segir að varnarmaðurinn Pepe muni spila seinni bikarleikinn gegn Barcelona í á morgun ef hann verður heill.

Pepe fór mikinn í fyrri leiknum - traðkaði meðal annars á hönd Lionel Messi og var harkalega gagnrýndur fyrir víða, til að mynda í fjölmiðlum.

Stuttu síðar bárust fregnir af því að Pepe hefði verið settur í fimmtán daga bann af félaginu sjálfur en svo virðist sem að það hafi ekki verið rétt. Mourinho segir vel koma til greina að hann spili á morgun.

„Hann mun spila ef líkaminn leyfir," sagði Mourinho en Pepe hefur verið tæpur vegna meiðsla aftan í læri og var ekki í hópi liðsins gegn Athletic Bilbao um helgina.

Spænska knattspyrnusambandið ákvað í gær að dæma Pepe ekki í bann vegna atviksins í fyrri leiknum.

Á blaðamannafundi Real Madrid í dag var ljóst að Mourinho vildi lítið sem ekkert segja við spænsku fjölmiðlamennina og andrúmsloftið á fundinum sagt afar stirt. Hann var til að mynda spurður um hvaða leikaðferð hann myndi notast við í leiknum á morgun.

„Ég ætla ekki að svara þessu. Ég er þjálfarinn. Þetta er mín ákvörðun og ég þarf ekki tilkynna hana opinberlega," sagði hann.

Í morgun var því svo haldið fram í spænskum fjölmiðli að Mourinho ætlaði að hætta hjá Real í júní. „Hef ég sagt það? Þú verður að spyrja kollega þinn," sagði Mourinho og voru öll svörin hans í svipuðum dúr.

Barcelona vann fyrri leikinn, 2-1, en hann fór fram í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×