Fótbolti

Sjáið Pepe stíga ofan á Messi - harðlega gagnrýndur á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spænskir fjölmiðlar voru allt annað en hrifnir af hegðun Pepe, leikmanns Real Madrid í leiknum á móti Barcelona í spænska bikarnum í gær en Real Madrid varð þá enn einu sinni að sætta sig við tap á móti erkifjendunum.

Portúgalinn Pepe var í stöðu afturliggjandi miðjumanns í leiknum en hann spilar venjulega sem miðvörður. Jose Mourinho gerði þarna enn eina tilraun til að stoppa spil Barca en eins og áður fundu Barcelona-menn leiðina að sigri.

Atvikið umdeilda gerðist rúmlega tuttugu mínútum fyrir leikslok og eftir að José Callejón, liðsfélagi Pepe, hafði brotið á Lionel Messi sem lá þá í jörðinni. Pepe kom aðvífandi og steig ofan á hendi Messi um leið og hann labbaði framhjá argentínska snillingnum. Það má sjá þetta atvik með því að smella hér fyrir ofan.

José Callejón fékk gult spjald fyrir sitt brot en Pepe, sem var kominn með spjald í leiknum, slapp. Pepe slapp hinsvegar ekki við harða gagnrýndi spænskra fjölmiðlamanna sem heimtuðu að Pepe yrði refsað fyrir hegðun sína.

Pepe hafði líka fyrr í leiknum látið eins og að Cesc Fabregas hefði slegið hann í andlitið en endursýningar sýndu að hendi Fabregas kom ekki nálægt andliti Pepe.

Pepe hefur sjálfur neitað því að hafa stigið vísvitandi á Messi og nú geta menn dæmt sjálfir með því að horfa á myndbrotið. Það sést líka á mynd hér fyrir ofan að Pepe horfir niður um leið og hann stígur á Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×