Sport

Clijsters vann á opna ástralska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kim Clijsters frá Belgíu vann í nótt sinn fyrsta sigur á opna ástralska meistaramótinu í tennis. Hún hafði betur gegn Li Na frá Kína í úrslitaviðureigninni.

Na varð fyrst kínverskra kvenna til að komast í úrslit á stórmóti og byrjaði vel í leiknum.

Hún vann fyrsta settið, 6-3, en tapaði næstu tveimur settum, 6-3 og 6-3, og þar með viðureigninni.

Clijsters hefur nú unnið tvö stórmót í röð og er komin upp í annað sæti heimslistans eftir sigurinn.

Efsta konan á heimslistanum, Caroline Wazniacki frá Danmörku, tapaði fyrir Na í undanúrslitunum en tapið í nótt var fyrsta tap Na á árinu.

Clijsters hætti keppni í tennis árið 2007 en sneri aftur árið 2009. Hún vann eitt stórmót áður en hún hætti (US Open 2005) en hefur nú unnið þrjú eftir að hún byrjaði aftur.

Hún bar sigur úr býtum á opna bandaríska meistaramótinu árið 2009 sem var það fyrsta hjá henni eftir að hún byrjaði aftur og varði þann titil í haust.

Hún bætti svo öðrum titli í safnið í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×