Innlent

Bíða DNA-rannsóknar á hnúajárni

Hnúajárn Maðurinn er talinn hafa notað hnúajárn til að berja á fyrrverandi kennara sínum. Þau eru nú í DNA-rannsókn.
Hnúajárn Maðurinn er talinn hafa notað hnúajárn til að berja á fyrrverandi kennara sínum. Þau eru nú í DNA-rannsókn.
Rannsókn á máli manns sem réðst á fyrrverandi kennara sinn í Grindavík í júlí er á lokastigi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Einungis er beðið eftir niðurstöðum DNA-rannsóknar á lífsýnum sem fundust á hnúajárni sem maðurinn er talinn hafa beitt við árásina.

Aðdragandi árásarinnar var æði sérstakur. Kennarinn fyrrverandi, sem nú er um sextugt, tjáði sig um fjöldamorð Norðmannsins Anders Breivik á Facebook-síðu sinni.

Gamall nemandi hans úr grunnskóla, nú á fertugsaldri, lagði orð í belg, lýsti sig hlynntan aðgerðum Breiviks og kvaðst vera bæði rasisti og nasisti. Deilur mannanna stigmögnuðust þar til sá síðarnefndi hótaði þeim eldri og fjölskyldu hans lífláti.

Að kvöldi sama dags bankaði rasistinn upp á hjá fyrrverandi kennara sínum og gekk í skrokk á honum. Hann veitti honum höfuðáverka, sem þó voru ekki alvarlegri en svo að boð lögreglu um að kalla til sjúkrabíl var afþakkað og leitaði maðurinn sér sjálfur aðhlynningar á sjúkrahúsi daginn eftir.

Að sögn Jóhannesar Jenssonar er málið þó rannsakað sem sérstaklega hættuleg líkamsárás, enda talið að vopni hafi verið beitt við atlöguna.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×