Innlent

Grunaður um aðild að e-töflusmygli

E-töflur 17 ára piltur var stöðvaður í Leifsstöð með 30 þúsund e-töflur seint í ágúst.
E-töflur 17 ára piltur var stöðvaður í Leifsstöð með 30 þúsund e-töflur seint í ágúst.
Karlmaður um tvítugt hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. september vegna gruns um aðild hans að umfangsmiklu e-töflusmygli, sem upp kom í síðasta mánuði.

Í málinu sem um ræðir var sautján ára piltur tekinn með 30 þúsund e-töflur í farangri sínum í Leifsstöð. Hann hafði einnig í fórum sínum tvö kíló af staðdeyfilyfinu líkódíni.

Pilturinn var handtekinn við komuna til landsins frá Kaupmannahöfn aðfaranótt 24. ágúst. E-töflurnar fundust í farangri hans, ásamt fimm kílóum af duftefnum sem reyndust vera þrjú kíló af alkóhólsykri, sem er alþekkt íblöndunarefni til að drýgja fíkniefni, og tvö kíló af ofangreindu staðdeyfilyfi.

Innflutningur síðarnefnda duftsins varðar við lyfjalög og er óheimilt að flytja það inn í miklu magni. Gæsluvarðhald yfir piltinum rennur út í dag.

Maðurinn, sem grunaður er um aðild að smyglinu var handtekinn 7. september síðastliðinn. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir handtökuna. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×