Erlent

Flaug til Noregs í yfirheyrslur

Breivik Í stefnuyfirlýsingu Breiviks er aðdáun lýst á Paul Ray, en Ray hefur barist gegn múslímum og fjölmenningu í Bretlandi. nordicphotos/afp
Breivik Í stefnuyfirlýsingu Breiviks er aðdáun lýst á Paul Ray, en Ray hefur barist gegn múslímum og fjölmenningu í Bretlandi. nordicphotos/afp
Breski þjóðernissinninn Paul Ray kom til Óslóar í gær til að fara í yfirheyrslur hjá lögreglu vegna hryðjuverkanna í Noregi 22. júlí. Ray kom sjálfviljugur til landsins til að ræða við lögreglu.

Í stefnuyfirlýsingu ódæðismannsins Anders Behring Breivik er Ray nefndur sem fyrirmynd og lærifaðir. Hann neitar því alfarið að hafa átt nokkur samskipti við Breivik og segist á engan hátt hafa verið lærifaðir hans.

Meðal þess sem lögreglan gerir nú er að rannsaka DNA-sýni og fingraför á búgarði Breiviks.

Fjárkröfur vegna hryðjuverkanna eru nú um tíu milljónir norskra króna, en þar vegur þyngst kostnaður níu sveitarfélaga eftir árásirnar. Þá er kostnaður hótels í Sundvolden í nágrenni Úteyjar 4,5 milljónir norskra króna. Jafnframt mun fjöldi einstaklinga fá greiddar bætur vegna árásanna.

Norska ríkisútvarpið hefur greint frá því að öryggisgæsla í kringum ráðherra hafi verið aukin eftir hryðjuverkaárásirnar. Forsætisráðherra hefur haft fasta lífverði en nú hafa þrír ráðherrar til viðbótar gæslu allan sólarhringinn. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×