Innlent

Talinn hafa barið manninn með hnúajárni

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar árásarmálið.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar árásarmálið.
Grunur leikur á að rúmlega fertugur karlmaður hafi notað hnúajárn þegar hann réðst á mann um sextugt í Grindavík og slasaði hann aðfaranótt síðastliðins laugardags.

Það var um fjögurleytið ofangreinda nótt sem árásarmaðurinn mætti að heimili eldri mannsins. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins voru útidyrnar ólæstar. Húsráðandi sá hreyfingu fyrir utan húsið, hugðist hlaupa fram í forstofu og læsa því. Hann varð of seinn og því komst gesturinn óboðni inn. Hann réðst þegar á húsráðandann og veitti honum áverka. Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd á vettvang skömmu síðar. Þar var húsráðandinn fyrir og blæddi úr höfði hans. Einnig var hann töluvert marinn.

Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að. Hann býr skammt frá fórnarlambinu og hélt lögregla til heimilis hans þar sem hann var handtekinn og hald lagt á hnúajárn.

Eldri maðurinn leitaði sér aðhlynningar á sunnudaginn. Árásarmaðurinn var yfirheyrður og síðan sleppt.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var undanfari líkamsárásarinnar samskipti mannanna á Facebook, þar sem yngri maðurinn hafði lofað ódæði norska hryðjuverkamannsins Anders Breivik, en eldri maðurinn beðið hann að láta af slíku. Samskiptin leiddu til þess að yngri maðurinn hótaði þeim eldri og fjölskyldu hans lífláti.

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum er málið rannsakað sem stórfelld líkamsárás þar sem grunur leikur á að barefli hafi verið beitt.

Fórnarlambið vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×