Innlent

Aska yfir Reykjavík

Öskumistrið sem lagðist yfir á sunnudagskvöld lá enn yfir í gær og hélt skólabörnum innandyra. Fréttablaðið/Daníel
Öskumistrið sem lagðist yfir á sunnudagskvöld lá enn yfir í gær og hélt skólabörnum innandyra. Fréttablaðið/Daníel
Grunnskólar og leikskólar á höfuðborgarsvæðinu héldu almennt börnum innandyra í gær vegna svifryksmengunar. Sama gilti um skóla fyrir austan fjall.

María Róbertsdóttir, leiðbeinandi á leikskólanum Geislabaugi í Grafarholti, segir börnin hafa verið inni allan daginn. „Þeim fannst þetta allt í lagi enda eru þau vön að vera inni einn og einn dag vegna veðurs.“

Óskar S. Einarsson, skólastjóri Fossvogsskóla, kvað algera stillu hafa verið í Fossvogsdalnum fyrir hádegi og börnunum þá verið haldið inni í frímínútum. „Ef maður stappaði niður fótum eða driplaði bolta þá sást að það þyrlaðist upp ryk,“ sagði Óskar sem endurmat stöðuna í hádeginu og gaf börnunum val um að fara út. „Það voru einstaka sem nýttu sér það en flestir voru inni.“

Jónína Ágústsdóttir, skólastjóri Akurskóla í Njarðvíkum, sagði að þar hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að hleypa börnunum út. Tveir bekkir ellefu og tólf ára barna hafi fylgt eftir áformum um að fara í skoðunarferð til Reykjavíkur. „Við létum þau hafa grímur en þegar til kom þá vildu þau ekki nota þær því þeim fannst ekki vera svo mikil aska,“ sagði Jónína.

Í Vesturbæjarskóla í Reykjavík voru krakkarnir inni fram að hádegi. Hildur Hafstað segir börnin hafa fengið að fara út í frímínútur í hádeginu. „Þau þurfa að fá að hlaupa dálítið og voru óskaplega ánægð þegar þau fengu að fara út,“ sagði Hildur. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×