Menning

Rosalegt bardagaatriði í Tortímanda

Dóri miðar byssu á skelfingu lostinn Snorra Engilbertsson í sýningunni Tortímandi.
Dóri miðar byssu á skelfingu lostinn Snorra Engilbertsson í sýningunni Tortímandi.
Hasarleikritið Tortímandi fjallar um sjálfsmynd karla. Verkið er lokaverkefni Dóra DNA úr LHÍ og hann lofar miklum hasar.

„Tíðarandinn er að breytast og sýningin er uppgjör okkar við karlmennskuna og feðraveldið sem ól okkur upp," segir Halldór Halldórsson, Dóri DNA, útskriftarnemi úr fræðum og framkvæmd í Listaháskóla Íslands.

Lokaverkefni Dóra, Tortímandi, verður frumsýnt í Kúlu Þjóðleikhússins á sunnudaginn. Snorri Engilbertsson og Hjörtur Jóhann Jónsson fara með aðalhlutverk í sýningunni, en þeir eru með Dóra í sviðslistahópnum Cobra Kai, sem dregur nafn sitt af slæmu strákunum í kvikmyndinni Karate Kid. Þá fer grínistinn Steindi Jr. með lítið hlutverk. „Ég mátti ekki blaðra þessu, en hann er að stíga hænuskref á leiksviðið í sýningunni," segir Dóri, sem lofar miklum hasar. „Við erum með rosalegasta bardagaatriði í sögu sviðslistar á Íslandi."

Cobra Kai hópurinn vinnur með form sem hann kallar hasarleikhús. „Við drögum spennumyndir inn í leikhúsformið," útskýrir Dóri. „Núna völdum við okkur Terminator 2 til að sviðsetja. Svo fáum við margt að láni annars staðar frá, þó að þetta sé algjörlega frumsamið efni."

Tortímandi fjallar um sjálfsmynd karla, sem má rekja til spennumynda sem Dóri og félagar í Cobra Kai ólust upp við. „Við erum strákar sem ólust upp við Rambo, Terminator og massaðar hasarfígúrur," segir Dóri. „Við ákváðum að nota það sem efnivið í sýninguna. Karlmennska í dag er tómt hugtak sem stendur ekki fyrir neitt lengur. Það er bara hallærislegt í dag ef einhver er talinn karlmannlegur."

Dóri segist líta á hasarhetjur níunda áratugarins sem síðustu móhíkanana. „Karlmennska í dag er farin að snúast um mann sem skilar skattaskýrslunni á réttum tíma og sækir börnin sín í skólann tíu mínútum fyrr," segir hann ákveðinn. „Eins og segir í sýningunni, þá er fólki drullusama um hvað þú ert laghentur því það getur fengið ódýrari Pólverja."

Ekkert kostar inn á sýninguna og miðasala fer fram í síma 552 5020 og í gegnum netfangið leiklist@lhi.is.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.