Viðskipti innlent

Vilja skýrari skilmála smálána

Strangar reglur verða um starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi ef frumvarp verður að veruleika sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, kynnti fyrir ríkisstjórn á þriðjudag.

Í frumvarpinu er kveðið á um skyldur fyrirtækjanna þar sem þau þurfa meðal annars að veita neytendum upplýsingar um ársvexti af lánum sínum.

Þá kveða lögin skýrt á um að greiðslumat þurfi að fara fram áður en lán er afgreitt og lántakendur megi greiða upp lán áður en lánstíma lýkur, án þess að greiða fyrir það hærri þóknun en sem nemur kostnaði lánveitanda.

í athugasemdum ráðuneytisins við frumvarpið segir að nauðsynlegt sé að setja ramma utan um slíka starfsemi. Þar segir að kostnaður við lánin sé oft óhæfilega hár, jafnvel 600 prósent upphæðarinnar sem lánuð er.

Umsagnaraðilar gátu þess meðal annars að starfsemi smálánafyrirtækja væri varasöm þar sem skilmálar væru óljósir og „viðkvæmir hópar“ gætu lent í vandræðum, meðal annars ungt fólk í fjárþröng og fólk með geðfötlun.- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×