Viðskipti innlent

Urðu að standa úr stólum sínum

forstjóri FME 47 stjórnarmenn fóru í hæfnismat hjá Fjármálaeftirlitinu. Einn fór tvisvar en féll í bæði skiptin. Fréttablaðið/PJEtur
forstjóri FME 47 stjórnarmenn fóru í hæfnismat hjá Fjármálaeftirlitinu. Einn fór tvisvar en féll í bæði skiptin. Fréttablaðið/PJEtur
Einn féll í tvígang í mati Fjármálaeftirlitsins (FME) á hæfi til að sitja í stjórn fjármálafyrirtækja, eignarhaldsfélaga og vátryggingafélaga. Þar á meðal eru stjórnir bankanna. Tólf þurftu að endurtaka matið og ákváðu þrír að endurtaka það ekki.

Þetta kemur fram í umfjöllun FME á niðurstöðum hæfnismatsins. Matið náði til 47 stjórnarmanna og stóðust 35 þeirra fyrstu atrennu. Níu stjórnarmenn sögðu starfi sínu lausu og mættu þeir ekki í matið. Líklegt er talið að þeir þrír sem ekki mættu í endurtekið mat og sá sem féll í tvígang hafi þurft að segja sig úr þeim stjórnum sem þeir áttu sæti í.

FME stofnaði sérstaka ráðgjafanefnd í janúar í fyrra sem sér um hæfnismatið. Það byggir á ítarlegu viðtali við stjórnarmenn þar sem farið er yfir þekkingu þeirra, skilning á ábyrgð þeirra og hlutverki sem stjórnarmenn, og viðhorf almennt.

Nefndin veitir umsögn um hæfi stjórnarmanna og er hún höfð til hliðsjónar við ákvörðun FME um hæfið. Ekki er um tilmæli að ræða, samkvæmt upplýsingum frá FME.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, er formaður nefndarinnar. Hann vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær og vísaði hann á Gunnar Andersen, forstjóra FME: Ekki náðist í Gunnar þegar eftir því var leitað í gær. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×