Viðskipti innlent

Hannes og Pálmi skiluðu ekki í tíma

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson
Mál gegn sjö fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis hefur verið tekið upp að nýju fyrir dómstóli í New York í Bandaríkjunum, að sögn Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar Glitnis.

Ástæðan er sú að tveir hinna stefndu, þeir Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson, skrifuðu ekki undir yfirlýsingu um að ef á Íslandi félli dómur slitastjórninni í hag væri hægt að ganga að eignum sjömenninganna í Bandaríkjunum.

Fyrir vikið var málið upp að nýju. Steinunn segir að dómarinn í New York hafi gert þá kröfu að sjömenningarnir skyldu allir skrifa undir yfirlýsinguna.

„Þessar yfirlýsingar lágu ekki fyrir í lok janúar og þá var málinu áfrýjað af hálfu Glitnis þar sem skilyrðin höfðu ekki verið uppfyllt," segir Steinunn.

Samkvæmt heimasíðu dómstólsins virðist Hannes þó hafa skilað inn yfirlýsingunni í gær. Þar er hins vegar ekki að finna yfirlýsingu Pálma. Steinunn hafði ekki frétt af yfirlýsingu Hannesar þegar Fréttablaðið ræddi við hana í gær. Ekki er vitað hvenær fyrirtaka verður í málinu.

Aðrir stefndu eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir, Lárus Welding, Jón Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson.- kh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×