Innlent

Gunnar Rúnar með tvískiptan persónuleika - afar umdeild röskun

Valur Grettisson skrifar
Gunnar Rúnar Sigurþórsson er með afar umdeildan geðsjúkdóm.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson er með afar umdeildan geðsjúkdóm.

Samkvæmt niðurstöðum Helga Garðars Garðarssonar geðlæknis þá er Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem banaði Hannesi Þór Helgasyni, með tvískiptan persónuleika. Vísir ræddi við Halldóru Ólafsdóttur, yfirlækni göngudeildar og bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans, en hún segist hafa séð örfá tilvik á sínum 25 ára ferli.

Tvískiptur persónuleiki flokkast undir persónuleikaröskun og brýst fram í öðrum persónuleikum eða alter egóum. Greiningin er gríðarlega umdeild að sögn Halldóru, meðal annars eru breskir geðlæknar afar andsnúnir greiningunni, sem hefur oft verið notuð í skáldskap.

Til að mynda er skáldsagan Dr. Jekyll og Mr. Hyde ein sýn bókmenntanna á röskuninni. Þá varð röskunin heimsþekkt eftir að aðalsögupersóna kvikmyndarinnar Fight Club reyndist vera tveir persónuleikar.

Halldóra segir lýsingar skemmtanaiðnaðarins þó tóma tjöru og ekkert í líkingu við veruleikann.

Gunnar Rúnar hefur játað að hafa myrt Hannes Þór á heimili hans í Hafnarfirði síðasta sumar. Í mati geðlæknanna kemur fram að Gunnar hafi orðið fyrir miklu áfalli þegar faðir hans svipti sig lífi, þá var Gunnar aðeins níu ára gamall.

Svo virðist sem Gunnar hafi átt gríðarlega erfitt með að sætta sig við föðurmissinn. Þannig taldi hann sér trú um að faðir hans væri enn á lífi. Það samræmist hugsanlega einu einkenni röskunarinnar, sem er að viðkomandi verði fyrir áfalli í bernsku sem hann neitar að horfast í augu við og grefur í undirmeðvitund sína. Svo brýst tilfinningin að lokum fram sem annar persónuleiki.

Einkenni persónuleikaröskunnar eru oft minnisleysi, óútskýrður höfuðverkur og skyndileg ofsareiði sem er ekki í samræmi við aðstæður.

Aðalsögupersóna Fight Club var líka með tvískiptan persónuleika. En lýsingarnar eru þó tóm tjara að mati sérfræðinga.

Að sögn Halldóru eru til dæmi um að fólk hafi verið greint með tvískiptan persónuleika löngu eftir að röskunin fór að gera vart við sig. Þannig getur viðkomandi gengið með einkennin í talsverðan tíma og leynt þeim.

En það er hart deilt um greininguna í fræðisamfélaginu. Sumir geðlæknar halda því fram að röskunin sé í raun ekki til. Þess má geta að hlutfallslega fleiri greiningar á þessum sérkennilega geðsjúkdómi eiga sér stað í Bandaríkjunum.

Þá er Helgi Garðar eini geðlæknirinn af þremur sem greinir Gunnar Rúnar með þessa röskun. Hinir tveir fjalla ekki um það.

Þá er athyglisvert að tvískiptur persónuleiki er elsti skráði geðsjúkdómurinn í sögubókum. Þannig er greint frá því að rómverski guðinn Janus hafi verið með tvö andlit. Þá var fólk með þessa röskun oft talið andsetið fyrr á öldum.

Árið 1974 kom bókin Sybil út og naut hún gríðarlegra vinsælda. Hún fjallaði um konu sem hafði 16 persónuleika. Í kjölfarið var gerð sjónvarpsmynd sem naut einnig mikilla vindælda. Þangað til þá höfðu 200 manns verið greindir með röskunina, en frá árunum 1980 til 1990 voru 20 þúsund einstaklingar greindir með röskunina. Þá voru 40 þúsund tilfelli greind í heiminum frá 1985 til 1995. Flestir í Bandaríkjunum og öðrum enskumælandi löndum.

Þrátt fyrir þetta þá er greiningin engu að síður meðal staðlaðra greininga bæði í Bandríkjunum og Evrópu og því viðurkennd greining í geðlæknafræðum.

Verjandi Gunnar Rúnars segir hann ósakhæfan. Ríkissaksóknari er hinsvegar ósammála og heldur því fram að skipulag morðsins hafi verið slíkt að hann hafi verið fullkomlega meðvitaður um gjörðir sínar. Geðlæknarnir þrír eru þó ósammála ríkissaksóknara samkvæmt vitnisburði þeirra, en afar sjaldgæft er að dómari dæmi gegn slíkum álitum.

Málið hefur verið lagt í dóm og má vænta dóms innan fjögurra vikna.


Tengdar fréttir

Fór að huga að morði eftir gerð YouTube myndbandsins

Hugmynd Gunnars Rúnars Sigurþóssonar um að losna við Hannes Þór Helgason virðist hafa sprottið upp eftir að hann setti myndband á YouTube með ástarjátningu til hennar til unnustu Hannesar. Þetta kom fram í máli Tómasar Zoega geðlæknis sem gerði yfirmat á Gunnari Rúnari Sigurþórssyni ásamt Kristni Tómassyni geðlækni.

Deilt um sakhæfi Gunnars Rúnars

Í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Rúnari Sigurþórssyni er aðallega deilt um sakhæfi Gunnars, sagði Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag. Vitnaleiðslur báru þessa klárlega merki í dag, enda voru fjögur vitni og þar af þrír geðlæknar. Gunnar Rúnar hefur játað morðið á sig á fyrri stigum þess og vildi ekki bæta neitt við þann framburð í dag.

Aðkoman á morðstað föst í huga Hildar

„Mér líður ógeðslega illa - persónan sem ég var er bara horfin," sagði Guðlaug Matthildur Rögnvaldsdóttir, unnusta Hannesar Þórs Helgasonar, við vitnaleiðslur í héraðsdómi í morgun. Guðlaug Matthildur, sem kölluð er Hildur, var niðurlút þegar hún gekk inn í dómssalinn.

Morðmálið lagt í dóm

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Rúnari Sigurþórssyni lauk eftir klukkan eitt í dag og málið var þá lagt í dóm. Ákæruvaldið krefst ítrustu refsingar yfir Gunnari Rúnari sem er sextán ára fangelsi. Verjandi hans krefst hins vegar sýknu á grundvelli 15. greinar almennra hegningalaga, þ.e. á þeirri forsendu að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum sökum geðveiki þegar morðið var framið.

Gunnar Rúnar svarar engu - víkur úr dómsal

Gunnar Rúnar Sigurþórsson svarar engum spurningum við aðalmeðferð sem nú stendur yfir þar sem hann er ákærður fyrir að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana. Lögmaður Gunnars, Guðrún Sesselja Arnardóttir, tilkynnti við upphaf aðalmeðferðarinnar í morgun að hann myndi nýta sér rétt sinn til að svara engum spurningum heldur aðeins staðfesta lögregluskýrslur. Gunnar Rúnar óskaði eftir að víkja úr dómsal á meðan aðalmeðferðin stendur yfir, utan þess þegar hann staðfestir lögregluskýrslur, og var orðið við þeirri beiðni. Að þessu loknu var gert stutt hlé á þinghaldi en næst á dagskrá er skýrslutaka af geðlæknum.

Djúpstæð sektarkennd vegna morðsins

Gunnar Rúnar Sigurþórsson þroskaðist eðlilega sem ungt barn en varð fyrir hörmulegu áfalli þegar faðir hans svipti sig lífi. Þetta sagði Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir sem gerði geðrannsókn á Gunnari Rúnari eftir að hann var handtekinn vegna morðsins á Hannesi Þór Helgasyni í ágúst. Helgi Garðar bar vitni í dómnum í morgun. Helgi Garðar telur Gunnar Rúnar vera ósakhæfan og vill að hann sæti öryggisgæslu.

Svæsið geðrof gerði Gunnar Rúnar ófæran um að stjórna gerðum sínum

Svæsið geðrof varð til þess að Gunnar Rúnar Sigurþórsson varð ófær um að stjórna gerðum sínum, sagði Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Gunnars Rúnars, í málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag. Máli sínu til stuðnings benti hún á vitnisburð þriggja geðlækna sem hafa borið vitni fyrir dómi. Hún fer frammá sýknu í málinu.

Erfiður morgunn fyrir fjölskyldu Hannesar

„Það hefur verið erfitt fyrir þá sem sitja í dómsalnum að hlusta á óhugnanlegar lýsingarnar á morðinu. Ekki síst fyrir fjölskyldu, vini og aðstandendur Hannesar. Þetta hefur verið erfiður morgunn,“ sagði fréttamaðurinn Andri Ólafsson, í viðtali við Bylguna í hádeginu, þar sem hann lýsti andrúmsloftinu í réttarhöldunum yfir Gunnar Rúnari Sigurþórssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×