Fótbolti

Barcelona-liðið komið í bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna marki Adriano Correia.
Leikmenn Barcelona fagna marki Adriano Correia. Mynd/AP
Barcelona tryggði sér sæti í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins með 3-0 útisigri í seinni undanúrslitaleiknum á móti Almería í kvöld. Barcelona vann fyrri leikinn 5-0 og því 8-0 samanlagt. Seinna í kvöld spila Real Madrid og Sevilla seinni leik sinn en Real vann 1-0 sigur í fyrri leiknum.

Þetta er í 35. sinn sem Barcelona kemst alla leið í úrslitaleikinn en jafnframt aðeins í annað skiptið frá árinu 1998. Barcelona vann Athletic Bilbao í úrslitaleiknum árið 2009 en var þá að spila sinn fyrsta úrslitaleik frá 1998.

Vinstri bakvörðurinn Adriano Correia kom Barcelona í 1-0 á 34. mínútu eftir einstaklingsframtak, Thiago Alcántara skoraði annað markið á 58. mínútu eftir sendingu Dani Alves og þriðja markið skoraði síðan Hollendingurinn Ibrahim Afellay á 66. mínútu eftir sendingu frá Seydou Keita.

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, leyfði sér að hvíla marga lykilmenn í leiknum en Seydou Keita, Javier Mascherano og Thiago byrjuðu á miðjunni og í framlínunni voru þeir Ibrahim Afellay, Bojan Krkic og Nolito.

Lionel Messi, Xavi, David Villa og Pedro Rodríguez voru allir á varamannabekknum og enginn þeirra kom við sögu í leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×