Fótbolti

Glæsileg þrenna Ronaldo sá um Villarreal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kaka og Cristiano Ronaldo fagna í kvöld.
Kaka og Cristiano Ronaldo fagna í kvöld. Nordic Photos / AFP

Real Madrid vann í kvöld 4-2 sigur á Villarreal eftir að hafa tvívegis lent undir í leiknum. Cristiano Ronaldo fór á kostum en hann skoraði fyrstu þrjú mörk Real og lagði það fjórða upp fyrir Brasilíumanninn Kaka.

Villarreal komst tvisvar yfir í fyrri hálfleik með mörkum Cani og Marco Ruben. En Ronaldo jafnaði metin í bæði skiptin.

Í síðari hálfleik kom hann svo Real yfir með glæsilegu marki og innsiglaði hann þar með þrennuna.

Kaka kom inn á sem varamaður í kvöld og var þetta fyrsti leikur hans á heimavelli á tímabilinu. Hann hélt upp á það með því að skora fjórða mark sinna manna, eftir sendingu frá Ronaldo.

Leikurinn var stórskemmtilegur og var leikmönnum oft heitt í hamsi. Juan Carlos Garrido, stjóri Villarreal, var sendur af velli undir lok leiksins og þá ákvað Jose Mourinho, stjóri Real, að ógna gestunum með því að fagna fjórða marki sinna manna beint fyrir framan varamannaskýli Villarreal.

Með sigrinum minnkaði Real forystu Barcelona á toppi deildarinnar aftur í tvö stig en liðin tvö eru með mikla yfirburði í deildinni. Villarreal er í þriðja sætinu, þrettán stigum á eftir Börsungum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×