Sport

Murray tryggði sér sæti í úrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Skotinn Andy Murray tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik í einliðaleik karla á opna ástralska mótinu í tennis þar sem hann mun mæta Novak Djokovic frá Serbíu.

Murray hafði betur í fjórum settum gegn David Ferrer frá Spáni, 4-6, 7-6, 6-1 og 7-6.

Murray byrjaði ekki nógu vel og eftir að hann tapaði fyrsta settinu var hann ekki langt frá því að tapa því öðru líka.

En hann náði að snúa taflinu sér í hag og er nú einum sigri frá sínum fyrsta stórmótstitli á ferlinum. Hann vann þriðja settið örugglega, 6-1, og hélt svo haus í því fjórða þar sem hann tryggði sér sigurinn í oddalotu.

Murray hefur tvisvar áður komist í úrslit stórmóts. Á opna ástralska mótinu í fyrra og á opna bandaríska árið 2008. Í bæði skiptin tapaði hann fyrir Roger Federer.

Federer tapaði fyrir Djokovic í undanúrslitunum í þetta skiptið en Ferrer hafði betur gegn Rafael Nadal í fjórðungsúrslitum. Er þetta í fyrsta skipti í þrjú ár þar sem að hvorki Nadal né Federer, efstu tveir mennirnir á heimslistanum, taka þátt í úrslitaleik á stórmóti.

Síðast gerðist það árið 2008, einmitt þegar að Djokovic hafði betur í úrslitaleik á opna ástralska gegn Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga.

Úrslitaviðureignin fer fram á sunnudag og verður í beinni útsendingu á Eurosport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×