Fótbolti

Fabregas: Við hræðumst ekki Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas.
Cesc Fabregas. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesc Fabregas skoraði tvö mörk þegar Barcelona vann 5-0 sigur á Levante í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi en framundan er El Clasico leikurinn á móti Real Madrid á Santiago Bernabeu um næstu helgi.

Real Madrid hefur þriggja stiga forskot á Barca og á auk þessi leik inni á Börsunga en Madridar-liðið hefur verið í miklum ham að undanförnu og er búið að vinna fjórtán leiki í röð í öllum keppnum.

„Við mætum á Bernabeu til að spila okkar vanalega leik og hræðumst þá ekkert. Andinn í hópnum okkar er frábær og við erum svo sannarlega nógu hugrakkir til að fara til Madrid til að ná í úrslit sem væri síðan gott veganesti til Japan," sagði Cesc Fabregas en leikurinn á móti Real verður síðasti leikur liðsins fyrir Heimsmeistarakeppni félagsliða.

„Við verðum að hafa það í huga að El Clasico leikurinn er oft vendipunktur á tímabilinu. Við gerum því allt til að sækja sigur og mætum óhræddir í þennan leik," sagði Fabregas.

Cesc Fabregas hefur skorað 7 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 9 leikjum sínum í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Liðsfélagarnir eru frábærir og þeir hafa hjálpað mér mikið að komast inn í leik Barca. Ég hef fullt að tækifærum til að fara fram og það er að skila mér öllum þessum mörkum," sagði Fabregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×