Fótbolti

Messi klúðraði víti í uppbótartíma og Barcelona gerði markalaust jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Real Madrid situr í toppsæti spænsku úrvalsdeildarinnar eftir að Barcelona náði aðeins markalaust jafntefli á móti Sevilla í kvöld. Real Madrid komst á toppinn eftir 4-0 sigur á Malaga fyrr í kvöld. Real er með 19 stig en Barcelona er með 18 stig. Levante getur síðan komist á toppinn með sigri í sínum leik á morgun.

Þetta er fyrsti leikurinn á tímabilinu þar sem að Barcelona-liðinu tekst ekki að skora en leikmenn Barcelona fengu nóg af færum til að tryggja sér sigurinn í kvöld. Það besta kom í lok leiksins.

Andrés Iniesta fiskaði þá vítaspyrnu í uppbótartíma en Lionel Messi lét Javier Varas verja frá sér vítið. Það tók nokkrar mínútur að taka spyrnuna þar sem Frederic Kanoute fékk bæði gult og rautt spjald áður en Messi tók vítið.

Frederic Kanoute hafði komið inn á sem varamaður á 67. mínútu. Hann fékk fyrst gult spjald fyrir að sparka í boltann eftir að Messi hafði stillt honum upp og svo rautt spjald fyrir að slá niður Cesc Fabregas.

Sevilla endaði leikinn 9 á móti 11 því Fernando Navarro fékk einnig rautt spjald í uppbótartíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×