Sport

Cardinals náði að jafna metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Freese tryggir hér sínum mönnum sigurinn í nótt.
David Freese tryggir hér sínum mönnum sigurinn í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Unnendur hafnabolta fengu flestir ósk sína uppfyllta í nótt er St. Louis Cardinals tryggði sér oddaleik gegn Texas Rangers í World Series-úrslitarimmunni í MLB-deildinni í nótt.

Cardinals vann ótrúlegan 10-9 sigur á Texas en úrslit fengust ekki fyrr en í elleftu lotu. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 7-7 en bæði lið skoruðu svo tvö stig í tíundu lotu.

David Freese var svo hetja Cardinals í elleftu lotu en hann sló þá boltann út af vellinum og skokkaði í heimahöfn við gríðarlegan fögnuð liðsfélaga sinna og stuðningsmanna í St. Louis.

Er mál manna að þessi úrslitarimma sé ein sú mest spennandi undanfarin ár en sjónvarpsáhorf á leiki liðanna hefur verið með mesta móti og jafnvel slegið við NFL-deildinni. Verkbannið í NBA-deildinni hefur ekki heldur skemmt fyrir.

Leikur liðanna í nótt er sagður vera einn sá eftirminnilegasti í langri sögu World Series.

Hérna má sjá myndband af glæsilegu höggi David Freese í nótt, á heimasíðu MLB-deildarinnar.

Oddaleikurinn fer fram í nótt og verður í beinni útsendingu á ESPN America, sem má nálgast á fjölvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×