Sport

Kastarar Red Sox sagðir hafa drukkið bjór á bekknum

Þrír af kösturum hafnaboltaliðsins Boston Red Sox hafna þeim ásökunum sem komu fram í sjónvarpsfréttum í gær að þeir hafi laumast til þess að drekka bjór á bekknum í leikjum Red Sox.

Kastararnir heita Jon Lester, Josh Beckett og John Lackey. Þetta eru ekki fyrstu ásakanirnar sem þeir fá eftir að tímabilinu lauk því blaðið The Boston Globe greindi frá því í síðustu viku að þeir hefðu étið djúpsteiktan kjúkling, drukkið bjór og spilað Play Station inn í félagsheimili er liðið þeirra var að spila.

Þá áttu þeir ekki að spila. Engu að síður er þess krafist að leikmenn sitji á bekknum og styðji liðsfélaga sína.

Samkvæmt nafnlausum heimildarmönnum þá leiddist þeim svo svakalega er þeir áttu ekki að spila að þeir fylltu plastglösin sín af bjór og fóru með þau á bekkinn og fylgdust með.

Leikmennirnir segjast ekki geta setið undir þessum ásökunum en þeir eru ekkert sérstaklega vinsælir þar sem Red Sox tókst ekki að komast í úrslitakeppnina í ár.

"Nú er nóg komið. Ég viðurkenni að hafa gert mín mistök í leikjum á þessu tímabili en þetta er of langt gengið. Að segja að við höfum drukkið á bekknum í leikjum er einfaldlega ekki satt," sagði Beckett.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×