Erlent

Áfrýjun Amöndu Knox tekin fyrir í dag

Ítalskur áfrýjunardómstóll kveður síðar í dag upp úrskurð sinn í máli bandarísku skólastúlkunnar Amöndu Knox, sem dæmd var í 25 ára fangelsi fyrir að hafa orðið meðleigjanda sínum að bana fyrir fjórum árum.

Knox barðist við að halda tárunum í skefjum þegar hún ávarpaði réttinn á lýtalausri ítölsku í morgun, rétt áður en dómstóllinn tók sér hlé til að ákvarða hvort hún og fyrrverandi elskhugi hennar, Raffaele Sollecito, væru sek um morðið á bandarísku skólastúlkunni Meredith Kercher árið 2007.

Knox hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og það gerði hún einnig í morgun. Hún sagðist bæði hafa misst vin og alla trú á ítölsku lögreglunni og að henni hafi verið refsað í fjögur ár fyrir eitthvað sem hún gerði ekki. Það sem vegur þyngst í þessu máli er að ný gögn hafa litið dagsins ljós, en sérfræðingar voru kallaðir til í því skyni að leggja mat á rannsókn ítölsku lögreglunnar á morðinu.

Lögfræðingur Knox hefur meðal annars bent á að skítugir hanskar voru notaðir til að safna sönnunargögnum. Ásamt því að áfrýja morðákærunni hefur Knox einnig áfrýjað ákæru fyrir ærumeiðingar sem hún var sakfelld fyrir, en Knox ásakaði á sínum tíma skemmtistaðaeigandann Patrick Lumumba um að hafa orðið meðleigjanda sínum að bana. Áfrýjunardómstóllinn kveður upp úrskurð sinn í málinu síðar í dag.

Ef hann hnekkir fyrri úrskurði yfir Knox og Sollecito gætu þau átt rétt á skaðabótum frá ítalska ríkinu upp á allt að 80 milljónir íslenskra króna. Mál Knox hefur vakið heimsathygli en sjónvarpsmynd, sem byggð er á sögu hennar, hefur þegar verið gefin út.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×