Sport

Paula Radcliffe búin að missa heimsmetið sitt í maraþonhlaupi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paula Radcliffe gerir sig hér klára fyrir maraþonhlaup.
Paula Radcliffe gerir sig hér klára fyrir maraþonhlaup. Mynd/Nordic Photos/Getty
Breski langhlauparinn Paula Radcliffe á ekki lengur heimsmetið í maraþoni kvenna og hún skilur eiginlega ekki sjálf af hverju. Radcliffe hljóp London-maraþonið árið 2003 á 2 klukkutímum, 15 mínútumog 25 sekúndum og það hefur engin kona hlaupið maraþonhlaup á betri tíma.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur samt ógilt heimsmetið hennar af því að nýjar reglur sambandsins segja nú til um það að heimsmet geta ekki verið sett í blandaðri keppni. Til að fá heimsmet staðfest í dag mega konur aðeins keppa við konur og karlar við karla.

Tími Radcliffe frá því í London-maraþoninu fyrir átta árum er nú titlaður besti tími sem hefur náðst í heiminum en fær ekki lengur að bera titilinn heimsmet.

Heimsmet í götumaraþonunum eins og haldin eru árlega í New York, London, Boston og Chicago heyra þar með sögunni til en öll "heimsmetin" í maraþoni kvenna undanfarna áratugi hafa verið sett í slíkum hlaupum þar sem konurnar hafa hlaupið við hlið karlanna.

Paula Radcliffe ætlar ekki eyða orku í að berjast fyrir heimsmeti sínu sem hún átti í rúm átta ár en segir í samtali við BBC að hún skilji ekki af hverju hún eigi ekki heimsmet lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×