Fótbolti

Barcelona tók fyrsta titil tímabilsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna í kvöld.
Leikmenn Barcelona fagna í kvöld. Nordic Photos / AFP
Lionel Messi var enn og aftur hetja Barcelona en hann skoraði tvívegis í kvöld er Börsungar unnu Real Madrid í síðari leik liðanna um spænska ofurbikarinn.

Barcelona vann 3-2 sigur í kvöld og þar með 5-4 samanlagt. Leikurinn stefndi reyndar í framlengingu en Messi skoraði sigurmark sinna manna á 88. mínútu leiksins með skoti af stuttu færi.

Messi átti þátt í öllum mörkum Barcelona í kvöld. Hann átti sendingu inn fyrir vörn Real á 15. mínútu sem Andres Iniesta tók við og vippaði boltanum yfir Iker Casillas í marki Madrídinga.

Cristiano Ronaldo náði svo að jafna metin fyrir Real fimm mínútum síðar en Messi kom heimamönnum aftur yfir með marki á lokamínútu fyrri hálfleiksins.

Ekkert var skorað lengi vel í síðari hálfleik þar til að Karim Benzema skoraði á 82. mínútu eftir klafs í teig heimamanna.

Cesc Fabregas kom inn á í sínum fyrsta leik með Barcelona mínútu síðar og hann átti þátt í sigurmarkinu. Hann lagði boltann á Messi sem átti laglegt samspil við Adriano, sem kom einnig inn á sem varamaður í kvöld.

Marcelona, bakvörður Real Madrid, fékk rautt spjald á fjórðu mínútu uppbótartímans fyrir að klippa Fabregas niður og ætlaði þá allt um koll að keyra. Þjóðverjinn Mesut Özil fékk einnig að sjá rautt fyrir sinn þátt í látunum. Sannarlega ótrúlegur endir á annars frábærri rimmu liðanna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×