Erlent

Viðbragðskerfi norsku lögreglunnar endurskoðað

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, tilkynnti í dag að viðbragðskerfi norsku lögreglunnar verði endurskoðað. Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að handtaka árásarmanninn Breivik klukkutíma eftir að henni barst tilkynning um árásina. Boðað var til samverustundar í norræna húsinu til að minnast þeirra sem létust í voðaverkunum í síðustu viku.

Stoltenberg sagði á blaðamannafundi í morgun að Norðmenn myndu ekki láta óttan stjórna þjóðinni eftir voðaverkin í síðustu viku. „Tilgangur slíkra árása er að vekja ótta og skelfingu. Við látum það ekki gerast. Við verðum að standa föst fyrir og verja gildi okkar."

Hann sagði það mikilvægt að þjóðin myndi nú takast á við sorgina svo lífið gæti haldið áfram. „Ég held að mesta þrekraunin hafi verið að sameina hina djúpu sorg, hryggðina, en um leið að geta gefið fólki von og segja því að þetta sé mikill harmleikur, en um leið að lífið verði að halda áfram."

Í dag var jafnframt ákveðið að endurskoða viðbragskerfi norsku lögreglunnar. „Ég held ekki að við hefðum getað komist fyrr á staðinn en við gerðum. Og eins og ég sagði á allt sinn tíma." sagði Sissel Hammer, lögreglustjóri í Honefoss.

Boðað er til samverustundar í norrænahúsinu í dag vegna harmleiksins í Noregi. Sendiherra Noregs flutti hugvekju og Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson léku nokkur lög. Þá gafst fólki kostur á að rita nafn sitt í bækur sem sendar verða út til Noregs í næstu viku til að sýna stuðning Íslendinga en fimm þúsund Íslendingar hafa nú þegar skrifað í bækurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×