Sport

Powell segist vera fljótari en Bolt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bolt hafði betur þegar kapparnir mættust í 100 metra hlaupi í maí í Róm
Bolt hafði betur þegar kapparnir mættust í 100 metra hlaupi í maí í Róm Nordic Photos/AFP
Spretthlauparinn Asafa Powell segir 99% líkur á því að hann vinni gull í 100 metra hlaupi á HM í frjálsum í næsta mánuði og á Ólympíuleikunum í London.

Powell hljóp á hraðasta tíma ársins 9.78 sekúndum í Lausanne í síðustu viku.

„Ég lít á sjálfan mig sem þann hraðasta. Ég er sá sem aðrir þurfa að sigra. Ég er bestur á þessu ári. Það gefur mér sjálfstraust og forskot á aðra," sagði Powell.

Powell segir pressuna vera á Usain Bolt, landa hans, sem er ríkjandi Ólympíumeistari í 100 og 200 metra hlaupi.

„Kastljósið verður á Bolt út tímabilið. Það gæti breyst að loknu heimsmeistaramótinu (í ágúst í Suður-Kóreu). Það hentar mér vel að vera utan sviðsljóssins í augnablikinu. Ég get staðist pressuna og mun vinna. Það er planið," segir Powell.

Powell keppir í 100 metra hlaupi á móti í Birmingham á morgun en Bolt verður ekki meðal keppenda. Bolt keppti í gærkvöldi í 200 metra hlaupi í París og kom fyrstur í mark. Mótin eru liður í Demantamótaröðinni í frjálsum íþróttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×